
Stjórnin
Vonarbrú
Almannaheillafélagið Vonarbrú var stofnað á páskadag 20. apríl 2025 og hóf formlega starfsemi í byrjun júní sama ár. Áður hafði óformlegt hjálparstarf til ungra fjölskyldna á Gaza farið fram á vegum Kristínar S. Bjarnadóttur hjúkrunarfræðings og annarra sjálfboðaliða í rúmt ár. Allt er unnið í sjálfboðavinnu á vegum Vonarbrúar og yfirbyggingin er engin.
Kristín S. Bjarnadóttir
Formaður stjórnar Vonarbrúar og framkvæmdastýra
Kristín er hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu í líknarhjúkrun og hefur starfað við líknar- og lífslokahjúkrun í heimahúsum á Akureyri og nágrenni síðan 2004.
Jafnframt gefur hún út dagatöl, tækifæriskort o.fl. með ljósmyndum sínum og orðaperlum til eflingar í dagsins önn, undir merkjum Blúndu og blóma. Kristín stóð fyrir söfnun fyrir sýrlensk börn í neyð vorið 2018 og hefur nú í rúmt ár stutt ungar barnafjölskyldur á Gasa, bæði með sálgæslu og styrkjum. Vonarbrú varð til upp úr því sjálfboðaliðastarfi hennar.
Ragnheiður Kristín Steindórsdóttir
Meðstjórnandi
Ragnheiður er leikkona sem hefur starfað hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Leikfélagi Akureyrar, með frjálsum leikhópum, í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum en var fastráðin við Þjóðleikhúsið í 40 ár.
Þó Ragnheiður hafi náð virðulegum eftirlaunaaldri starfar hún enn við list sína. Réttlæti, friður og mannréttindi hafa alltaf verið Heiðu mikilvæg og baráttan fyrir málstað Palestínu hefur átt hug hennar og hjarta síðan Ísraelsríki hóf þjóðarmorð á Gaza. Ragnheiður sendir innilegt þakklæti til allra þeirra sem taka þátt í að bjarga mannslífum í gegnum Vonarbrú.
Birgir Hauksson
Meðstjórnandi
Birgir er kjötiðnaðarmeistari, kartöflubóndi og friðarsinni. Hann hefur látið sig velferð stríðshrjáðra varða með ýmsum hætti í gegnum tíðina en hann kom meðal annars að söfnun fyrir sýrlensk börn í neyð vorið 2018.
Nú síðastliðið rúmt ár hefur hann tekið þátt í óformlegu hjálparstarfi eiginkonu sinnar, Kristínar S. Bjarndóttur hjúkrunarfræðings, fyrir ungar fjölskyldur á Gasa. Því hefur hann sinnt með framlögum, pappírsvinnu og utanumhaldi af ýmsu tagi og hefur séð um aðföng og utanumhald fjáröflunarmarkaða.
Sóley María Kristínardóttir
Varakona í stjórn
Sóley María er sálfræðingur en hún útskrifaðist með meistaragráðu í klínískri sálfræði frá Háskóla Íslands 2024. Hún sinnti aðstoðarkennslu og rannsóknarvinnu við Háskólann í Reykjavík meðan hún var þar í Bsc námi í sálfræði og vann einnig sem stuðningsfulltrúi á íbúðarkjarna.
Sóley María hefur áður látið sig mannúðarstarf varða, meðal annars tengt söfnun fyrir sýrlensk börn í neyð vorið 2018. Sóley er nýlega flutt á heimaslóðir við Eyjafjörð og hefur störf þar fljótlega.